

Ég hef alltaf verið hrifinn af myndum sem hafa lítinn, einfaldann söguþráð og ganga meira út á að skapa andrúmsloft eins og t.d. Lost in Translation, Fear and loathing in Las Vegas ofl. Þessari mynd tekst það svo sannarlega og allt útlit í þessari mynd er alveg svakalega flott. Síðasta (og reyndar eina myndin) sem ég hef séð eftir Micheal Gondry var Eternal Sunshine of the spotless mind, sem er án efa ein af mínum uppáhalds. Mér fannst þess vegna mjög gaman að sjá hvernig stílbrögð hans sem leikstjóra kom sterkt í gegn í myndum hans. Í báðum myndum leikur hann sér mikið með liti og litasamsetningar. Stóri munurinn er þó sá að Eternal Sunshine.. inniheldur stórann og flókinn söguþráð (en skapar samt þetta flotta andrúmsloft) á meðan The Science of sleep hefur, eins og áður hefur komið fram, þennan rosalega einfalda söguþráð. Ég veit ekki alveg hvort ég fíla betur og sé í rauninni ekki neinn tilgang í að velja heldur.
En aðeins aftur að útliti myndarinnar. Það sem mér fannst flottast var hvernig draumaheimur Stephanes er eiginlega allur úr pappa og mörg atriði virðast hafa verið tekin upp fyrir framan green screen og síðan hafa verið settur inn þessi flotti pappa bakgrunnur. Sérstaklega fannst mér töff pælingin með innviði höfuðsins á honum en þar er allt úr bylgjupappa og atriðin sett upp eins og hann sé þáttastjórnandi í eigin lífi.

Hvað leik varðar standa aðalleikararnir tveir sig, Gael Garcia Bernal og Charlotte Gainbourg, alveg frábærlega. G. G. Bernal á það til að fara rosalega í taugarnar á mér sem leikari, eins og t.d. í Babel, en getur líka verið algjörlega frábær, eins og t.d. í Motorcycle diaries. Hann stendur sig með prýði í hlutverki Stephanes og ég man í rauninni ekki eftir að hafa séð hann leika jafn vel. Charlotte Gainbourg hafði ég ekki séð leika áður (allavega ekki svo ég muni) og hún skilar öllu sem hún þarf að skila með stakri prýði. Leikararnir ná upp mjög góðu "chemistry" á milli sín og maður virkilega finnur til með Stephanie þegar draumar Stephanes byrja að fokka í sambandi þeirra (vil eiginlega ekki gefa neitt upp, eyðileggur svolítið upplifunina).
Virkilega skemmtileg mynd sem ég mæli með fyrir alla sem fíla svona atmosphere myndir með smá sýru ívafi. Ég væri reyndar meira en til í að horfa á hana aftur þar sem það var á köflum erfitt að skilja skilin milli draums og raunveruleika en það var auðvitað þannig sem það átti að vera og maður náði einhvernvegin tengingu við það sem Stephane var að ganga í gegnum.
Stigagjöf:
4/5