Tuesday, November 27, 2007

The Cabinet of Dr. Caligari


Þessi mynd fannst mér vægast sagt klikkuð. Þetta voru mín fyrstu kynni af þýska expressionismanum, fyrirbæri sem maður hefur oft heyrt um en aldrei í rauninni nennt að kíkja á. Mér fannst þetta klikkað. Það greinilegt að nútímaleikstjórar á borð við Tim Burton (sem er einn af mínum uppáhalds og gæti útskýrt afhverju mér finnst hann svona góður eða afhverju mér fannst þessi mynd svona góð) hafa sótt mikið í brunn expressionismans. Til dæmis fannst mér líkindin koma greinilega í ljós í svona skökkum húsum og svona borðum og stólum sem voru algjörlega úr hlutföllum.

Ég nenni ekki alveg að fara út í söguþráð myndarinnar því það er nú kominn alveg ágætis tími síðan við sáum hana og ég vil ekki fara vitlaust með eitthvað. Ég skil í rauninni ekkert í mér að hafa ekki verið löngu búinn að blogga um þessa mynd því mér fannst hún alveg einstaklega töff.

Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af silent myndum en þessi vakti svo sannarlega áhuga minn og The General jók enn meira á hann! Þarf að tjékka á einhverjum fleiri svona classics!

The Seventh Seal


Þessi mynd var án efa sú skemmtilegasta sem ég hef séð hingað til af þessum myndum sem við höfum átt að horfa á. Ingmar Bergmann hitti algjörlega í mark þarna.

Í fyrsta lagi finnst mér conceptið mjööög töff. Að láta miðaldar riddara tefla við dauðann í mjög svo drungalegri fjöru finnst mér alveg ógeðslega töff. Myndin gerist þegar svarti dauði herjar á Evrópu og svo ég vitni nú í okkar ástkæra Inspector sem mér fannst komast svo vel að orði:

"Hræðsla, ofstækistrú, ofbeldi og hatur eru allsráðandi og dauðinn herjar á annan hvern mann."

Í öðru lagi fannst mér contrastinn sem myndin var tekinn upp í geðsjúklega töff. Svart og hvítt með alveg rosalega skörpum skila á milli litanna. Þetta minnti mig örlítið á 300 sem var líka tekin upp í svona rosalegum contrast og allir litirnir urðu eiginlega svona óraunverulegir. Mjög töff.

Í þriðja lagi vakti þessi mynd virkilega mikinn áhuga minn á þessum leikstjóra. Ég ætla hiklaust að kíkja á fleiri myndir eftir Bergmann. Er það ekki annars punkturinn með að sýna okkur þessar myndir? Að vekja áhuga okkar á þessum legendary leikstjórum og myndunum þeirra? Siggi, þér tókst það svo sannarlega í þetta skiptið! Props!

8 1/2


Það eina sem ég vissi um þennan leikstjóra fyrir áhorfið var að þetta var uppáhaldsleikstjóri eiturlyfjaneytandanna og geðsjúklinganna í The Mars Volta. Þessa tengingu skil ég mjög vel enda var myndin jafn súr og síðasti diskur þessara meistara.

Myndin fannst mér alveg einstaklega furðuleg og þrátt fyrir nokkrar mjög svo flottar senur var hún samhengislaus og skrýtin. Ég veit ekki hvort að þetta er bara ég en ég get ekki sætt mig bara við nokkra tíma af einhverju listrænu rúnki. Ég verð að fá söguþráð. Bara smá, bið ekki um mikið, bara smá. Tökum sem dæmi eina af mínum uppáhaldsmyndum: Fear and Loathing in Las Vegas. Hún er í rauninni ekki með neinn svona solid söguþráð en hún byggir upp svo geðveikt andrúmsloft og er í það minnsta ekki algjörlega samhengislaus.

Ég get ekki sagt að ég sjái eftir að hafa horft á myndina (eins og t.d. American Movie) en ég get alveg fullvissað ykkur um að ég ætla ekki að sækjast í það að sjá fleiri Fellini myndir þ.e.a.s. ef þær eru allar svona.

Monday, November 19, 2007

Uppbótarfærla #1 - The General og American Movie

Ég veit, ég veit. Það eru allir löngu búnir að blogga um þessar myndir en þar sem að ég er svo mikill auli að mæta aldrei í sýningartímana ætla ég að taka allar þessar myndir og blogga um þær (þó ekki væri nema til þess minnsta kosti að fá mætingu í tímana og auðvitað að sjá öll þessi tímalausu meistaraverk).

Ég tók ákvörðun um að reyna að gera þetta í svona sæmilegri tímaröð. Útfrá þeirri röð sem myndirnar voru sýndar í þ.e.a.s. ekki eiginlegri tímaröð og ákvað því að byrja á The General og færa mig svo yfir í American Movie. Það hefði ég betur ekki gert. Þetta var rosalega mikið eins og að borða kökuna sem var ætluð í eftirrétt á undan ofelduðu steikinni sem var aðalrétturinn. Það sem ég á við að ég þurfti gjörsamlega að þröngva mér í gegnum American Movie því eftir að hafa horft á jafn frábæra mynd og The General var gjörsamlega ömurlegt. Það ömurlegt að ég hætti eftir helming myndarinnar.

En allavega.

The General
Ég sé eiginlega engan tilgang í að vera að fara eitthvað ýtarlega út í söguþráð þessarar myndar þar sem að þið eruð örugglega búnir að lesa þetta einhverstaðar annarsstaðar eða sáuð bara einfaldlega myndina sjálfa. Það er þó alltaf gaman að tala örlítið um þetta. Myndin fjallar í mjög, mjög grófum dráttum um mann sem ekki þykir "fit" til að vera í hernum og sinnast þess vegna við kærustuna. Upp hefst síðan svakalegur eltingaleikur þar sem Buster Keaton sýnir ótrúlega fimi og framkvæmir hluti sem hafa örugglega þótt algjörlega fáránlegir á þessum tíma. Buster Keaton er þarna í aðallhlutverki en hann skrifaði einnig myndina ásamt Clyde Bruckman. Hlutverkið gjörsamlega smellpassar manninum (sem á örugglega orsök sín í því að hann skrifaði myndina).
Ég hef aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um silent tímabilið en þó haft mikið gaman af einstaka Chaplin myndum og svona. Þessi mynd fannst mér hinsvegar svo helvíti skemmtileg að ég get fullyrt það að ég ætla að kynna mér þetta betur í ró og næði í jólafríinu.




American Movie
Ég hef ekkert gott að segja um þessa mynd. Mér fannst hún bara drepleiðinleg. Nenni svona semi ekki að eyða orðum í hana. Sorry Siggi en ég bara get það ekki. Verður bara að gefa mér skróp fyrir þessa tíma ef þessi færsla er ekkki fullnægjandi. Bóbó sagði eiginlega allt sem ég hef að segja um þessa mynd. Ég vísa því í færsluna hans

Wednesday, November 14, 2007

This is England - 2007

Sá þessa mynd á Græna Ljósinu síðast liðinn laugardag. Svo ég haldi áfram þeirri hefð að tala um eitthvað allt annað en bíómyndina sjálfa í byrjun færslu þá vil ég byrja á því að hrósa Græna Ljósinu. Ég hélt alltaf að þetta væri einhver svona bara .. ný stefna hjá Regnboganum þ.e. að höfða til fólks sem þolir ekki að bíða yfir 20 min af auglýsingum á undan 20 min af trailerum. En, nei. Ég komst að því að þetta kemur Regnboganum í sjálfu sér ekkert við fyrir utan það að GR leigir af þeim sal. Myndin byrjaði semsagt á réttum tíma og hætt var að selja inn eftir að myndin byrjaði. En ég er búinn að geyma það besta þangað til núna - EKKERT HLÉ!!!! Djöfull elska ég að fara í bíó og það er ekki hlé. Hef reyndar ekki gert það oft en það er fokking frábært! Sökk gjörsamlega inn í myndina í staðinni og naut hennar mun betur heldur ef það hefði verið hlé.

Allavega.


This is England

Ég vissi í rauninni ekkert um hvað þessi mynd var þegar ég fór á hana fyrir utan það að hún fjallaði um enska öfga þjóðernissinna. Ég var ekkert með neinar sérstaklega miklar væntingar en hafði samt alveg trú á því að þetta yrði góð ræma (enda hafði títt nefndur Ingólfur Halldórsson mælt með henni). Það má með sanni segja að Shane Meadows hafi tekist að framreiða eina allra bestu bíómynd sem ég hef séð lengi. Já ég veit að þetta eru stór orð en ég stend við þau.

1. Söguþráður
Myndin fjallar um ungan dreng að nafni Shaun sem missti pabba sinn í stríðinu um Falklandseyjar árið 1983. Honum er strítt í skólanum og finnst lífið með einstæðri móður sinni frekar skítt. Lífið gengur sinn vanagang alveg þangað til að hann rekst á hóp róttækra pönkara á leið heim úr skólanum. Þeim verður strax vel til vina og þrátt fyrir töluverðan aldursmun er Shaun brátt fagnað sem einum af genginu. Lífið var gott - en aðeins um stund. Þegar höfuð hópsins Combo snýr aftur eftir nánst 4 ára fangelsisvist tvístrast hópurinn. Combo er mjög nálægt því sem ég myndi bara stimpla sem nýnasista og er með mjög ákveðnar skoðanir hvað varðar útlendinga í sínu ástkæra Englandi. Shaun flækist síðan inn í þetta allt saman og spennan magnast. Ætla ekki að segja meira. Sjáið þetta bara!

2. Look
Look-ið á þessari mynd fannst mér alveg einstaklega töff. Myndin var einhvernvegin eins og hún hefði í alvöru verið tekin upp árið 1983 (þá ég við myndgæði) þ.e. hún var alveg einstaklega trúleg! Búningarnir voru líka geðveikir.


Trailer myndarinnar


Leikurinn
Leikurinn er vægast sagt frábær! Thomas Turgoose á frábæran leik sem litli strákurinn Shaun. Á meðan ég sat í bíóinu velti ég því fyrir mér hversu gamall þessi drengur er. Ég var handviss um að hann væri yngri en karakterinn sem hann lék (sem var 12 ára). Ég komst síðan að því, mér til mikillar undrunnar, að hann er fæddur 1992. Sem gerir hann ári eldri en yngsti nemandi Menntaskólans í Reykjavík og mun yngri en Baltasar Breki Baltasarsson, stórstjarna MR-inga.
Thomas Turgoose í hlutverki Shaun


Stephen Graham stendur sig vel eins og alltaf í hlutverki Combo og Joseph Gilgun á líka frábæran leik sem Woody, höfuðpaur pönkarahópsins sem Shaun vingast við.


Frábær leikur. Frábært setting. Frábær tónlist. Frábær saga. Frábær mynd!


Stigagjöf:

4,5 / 5

Friday, November 9, 2007

Romeo & Juliet - 1997


Romeo & Juliet
Ég er búinn að vera að hugsa um það alveg ótrúlega lengi hvað mig langar að sjá þessa mynd aftur og lét loksins verða af því í síðustu viku. Þar sem ég rausaði alveg helling um hneykslun mína á háu leiguverði Bónusvideo þá vil ég byrja á að hrósa videoleigunni James Böndum fyrir frábæra þjónustu og lágt verð (ætlaði að leigja myndina og var þá tilkynnt að ég gæti annaðhvort leigt hana á 200 kall eða keypt hana á 100 kall). Það er alveg augljóst hvert ég mun beina viðskiptum mínum í framtíðinni!

En að myndinni. Myndin er stílfærð útgáfa af frægasta leikriti Williams Shakespears, Rómeó og Júlíu, eins og titillinn gefur augljóslega í ljós. Ég á einhvernvegin frekar erfitt með að útskýra þetta en prufið að ímynda ykkur söguna um Rómeó og Júlíu tekna úr miðaldar-settinginu sem hún gerðist í og troða síðan öllu heila klabbinu með upprunalegum texta og öllu í miðja stórborg nútímans. Það er svo í grófum dráttum það sem Baz Luhrman gerði við þetta meistaraverk Shakespears.

Þetta er atriðið þar sem Rómeó og Júlía sjá hvort annað í fyrsta skipti (í grímubúningapartí hjá Capulet ættinni)


Fyrst um sinn fannst mér það pínulítið skrýtið að sjá Rómeo (Leonardo DiCaprio) og Júlíu (Claire Danes) flytja upprunalegan texta leikritsins í svona nútímalegu umhverfi en það vandist fljótt og varð eiginlega bara virkilega, virkilega töff. Þetta hefði aldrei virkað nema vegna þess hversu ótrúlega vel þessi tvö og í raun allir hinir leikarar myndarinnar standa sig ótrúlega vel! Ég get ímyndað mér að það sé allt annað en auðvelt að flytja þennan texta, sem allur er á frekar fornri ensku, og leika þetta vel í leiðinni. Sérstaklega fannst mér Pete Postlethwaite sem lék prest og vin Rómeós og Harold Perrineau sem lék besta við Rómeos Merkútíó leika sín hlutverk frábærlega.
Tónlistin í myndinni er gjörsamlega geðveik. Ég átti reyndar soundtrackið löngu áður en ég sá myndina. Mig minnir að ég hafi stolið því frá bróður mínum einhverntíman því á því voru tvö Radiohead lög, Talk Show Host og Exit Music. Fyrrnefnda lagið gengur eiginlega eins og þema í gegnum nánast alla myndina og ég man allavega eftir 3 mjög mikilvægum atriðum þar sem lagið var undir. Exit music, sem var í raun aðeins samið fyrir myndina en fékk síðan að vera með á meistaraverkinu OK Computer, kemur síðan yfir credit listann á einhvernvegin ótrúlega vel við þarna (gæsahúð). Fyrir utan þessi lög, eitt Moby lag og nokkur trip-hop lög, er restin af tónlistini mest megnis einhverskonar kóratónlist eða falleg klassík tónlist leikin af sinfóníuhljómsveit.
Mig langar líka aðeins að tala um allt umhverfið í myndinni sem mér fannst alveg ótrúlega töff. Í þessari stílfæringu á þessum löngu klassíska leikriti er einhvernvegin allt rifið úr samhengi en virkar samt fullkomlega. Til dæmis fannst mér pælingin með að sýna mikilfengleika og í leið óvináttu Capulet og Montague ættanna með því að stilla upp risastórum skýjakljúfum hvorrar ættar andspænis hvorum öðrum í miðri Verona borg. Einnig fannst mér mér pælingin með risastór "leiksviðið" niðri á ströndinni, þar sem Montague-strákarnir réðu ríkjum, geðveik. Atriðið milli Rómeós og Tíbalt er t.d. eitt það flottasta sem ég man eftir.

Allavega. Ég bar alveg helvíti miklar væntingar til þessarar myndinar og í stuttu máli sagt stóðst hún allar mínar væntingar og gott betur! Eftir að maður hafði aðeins vanist því að hlusta á þennan gamla enska texta varð þetta allt alveg ótrúlega töff og það rann upp fyrir manni hvað það voru margar virkilega góðar pælingar í gangi þarna. Til dæmis að láta alla karakterana fara með byssurnar sínar eins og sverð fannst mér mjög flott. Síðan er sagan auðvitað geðveik. Forboðin ást, hatur og morð eru náttúrulega löngu orðin klassík yrkisefni en sjaldan hefur tekist betur til en hér. Mæli með þessari!

Stigagjöf:

4/5

Thursday, November 1, 2007

High Fidelity (2000) og Hot Fuzz (2007)

Það eru liðin ár og öld síðan ég bloggaði hérna síðast. Hef einhvernvegin ekki fundið andann koma yfir mig undanfarið en sá mér ekki annað fært en að skella inn einni færslu hérna svona rétt til að friða yfirvaldið. Ég var reyndar búinn að ákveða að næstu færslur yrðu um myndirnar sem við eigum að vera búnir að horfa á þ.e. Notorious, General og fleira en sökum anna hef ég ekki enn komist í að horfa á þær. Geri það væntanlega um helgina (ekki þó allar kannski)

Eftir að hafa tekið þrefalt hádegishlé með vinunum ákváðum við bara að við höfðum ekkert betra að gera en að eyða deginum í vitleysu/vídjógláp. Svo við yfirgáfum Gráa Köttinn með það að markmiði að horfa á a.m.k. tvær bíómyndir fyrir kvöldmat. Eitthvað drógst þetta þó á langinn hjá okkur svo að nánast allur dagurinn og fyrri hluti kvölds fór í þetta (tíma vel eytt). Planið var semsagt að leigja allavega Fear and loathing in Las Vegas þar sem helmingur hópsins hafði ekki séð hana og restinni finnst hún snilld. Við komum þó að luktum dyrum á Aðalvideoleigunni en létum það ekki stoppa okkur og gengum út á Granda í Bónusvideo. Þar tjáði stelpan í afgreiðslunni okkur að Fear and loathing væri ekki til. Mig grunar reyndar bara að hún hafi verið annaðhvort freðin en kunni ekki að skrifa "loathing". High Fidelity var plan B svo að eftir að ég hafði stafað Fidelity fyrir hana u.þ.b. þrisvar sinnum tókum við hana sem gamla mynd og Hot Fuzz sem nýja mynd. Mig langar líka að koma á framfærri þeirri svívirðilegu vanvirðingu að láta mann borga 650 kr. fyrir skitla videospólu! Anskotinn hafi það! 650 KALL!!

En allavega ... að myndunum:


High Fidelity - 2000
Ég sá þessa mynd fyrst með bróður mínum þegar hún kom út og því löngu kominn tími á að ég sæi hana aftur. Helvíti skemmtileg mynd. Myndin fjallar í grófum dráttum um plötubúðareigandann Rob Gordon (John Cusack) og líf hans. Hann er með áráttu fyrir því að búa til lista yfir nánast hvað sem er og í gegnum myndina fylgjumst við honum segja frá Topp 5 "break-ups" og meðal annars því sem hann stendur í núna. Mikið af myndinni snýst um umræðum um tónlist og allskonar vinylplötur og annað skemmtilegt. Þar sem að ég er forfallinn tónlistaráhugamaður fannst mér einstaklega skemmtilegt að heyra allt þetta tal um músík og myndin þ.a.l. höfðaði mikið til mín.
Leikurinn er mest megnis bara helvíti góður. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi John Cusack en hann stendur sig mjög vel og skilar því sem hann þarf að skila. Mest hafði ég þó auðvitað gaman að karakter Jack Black (Barry) en hann er manískur "vinur" Robs sem gerir ekkert annað en að dreyma um að vera í rokk hljómsveit og hanga í plötubúðinni. Atriðið í enda myndarinnar þar sem Barry syngur "Let´s get it on" er algjörlega ógleymanlegt. Einnig fannst mér Todd Louiso standa sig frábærlega sem feimni vinyl-nördinn.
Tónlistin var helvíti skemmtileg. Mest megnis bara þekkt popplög og annað álíka.
Mæli eindregið með þessari mynd fyrir þá sem hafa gaman af virkilega góðum "rómantískum gamanmyndum" (hata þess orðasamsetningu en eiginlega verð að nota hana hér. Ekki samt láta þetta fæla ykkur frá því myndin er í alvöru mjög, mjög góð)

Stigagjöf

3,5 / 5




Hott Fuss - 2007
Ég var dregin á þessa mynd í bíó fyrr á þessu ári og sá fram á hundleiðinlega tvo tíma. Annað kom á dagin. Myndin er ekta bresk, súr gamanmynd með alveg kolsvörtum húmor. Simon Pegg er nátturlega meistari.
Myndin fjallar um ofurlögguna Nicholas Angel (Pegg) sem er sendur út á land þar sem að hann var orðinn það góður að hann varpaði skugga á restina af löggunum í London. Angel lætur það að vera í smábæ ekki stoppa sig í að vera sem allra besta löggu og byrjar að "taka til" í bænum. Undarlega "slys" fara þó að eiga sér stað og Angel er fullviss um að þarna sé ekki allt með feldu. Restin af bænum er þó á öðru máli og setur upp grímu sakleysis þegar Angel fer að tala um morð. Myndin leysist síðan upp í aaaalgjöra kaos og vitleysu en gengur þó aldrei yfir strikið. Síðustu 30 min af myndinni eru alveg rosalegar.
Ég í raun bjóst ekki við neinu af þessari mynd þegar ég sá hana fyrst og þess vegna fannst mér hún kannski svona góð. Þannig að þó að ég sé að lofa hana myndi ég taka þessu með fyrirvara þar sem að hún er alveg örugglega ekki allra. Þetta er bara helvíti góð skemmtun! Mér fannst hún reyndar ekki jafn skemmtileg í seinna skiptið en ég meina fokk it.. skiptir ekki máli.

Stigagjöf

3,5 / 5



Allt í allt var þetta bara helvíti skemmtilegur dagur. Tvær góðar myndir og þrír góðir vinir. Mæli með að taka sér svona frí frá lærdómnum og glápa bara. Getur verið gjéggjað.