Tuesday, March 11, 2008

Tónlist í bíómyndum


Tónlist í kvikmyndum hefur lengi verið mér mjög hjartfólgin og er oft það fyrsta sem ég tek eftir í bíómyndum. Þar sem við erum að tala um hljóð og hljóðvinnslu í þessari viku fannst mér tilvalið að deila mínum hugmyndum um þetta. Ég er búinn að tala oft um ambience hljóð og fleira þannig í fyrri færslum þannig ég ætla að sleppa þeim alveg núna og einbeita mér að tónlistinni sjálfri. Já eða fjarveru tónlistar. Að mínu mati er nefnilega alveg jafn mikilvægt að vita hvar tónlistin á að vera og hvar ekki og að tónlistin sé góð. En ég kem nánar inn á þetta á eftir.

Hvaða máli skiptir tónlistin?
Ég held að flestir geti verið sammála um mikilvægi þess að hafa tónlist í kvikmyndum. Þegar kvikmyndagerð hófst voru myndirnar í fyrstu, eins og allir vita, þöglar og því tónlistin stór hluti myndanna. Þá miðaðist tónlist sem mest við að túlka líðan og tilfinningar persónanna í myndinni og þá sérstaklega aðalpersónunnar. Tónlistin var því hröð þegar persónan hljóp, hugljúf þegar hana dreymdi og ógnvekjandi þegar hún lenti í klípu. Hlutverk tónlistarinnar er ennþá nokkuð svipað en áherslurnar hafa breyst mikið. Núna miðast tónlist oftast við að búa til andrúmsloft í annaðhvort atriði eða því sem er orðið nokkuð algengt núna undanfarið heilu bíómyndanna. Þetta er þó ekki eina hlutverkið heldur hefur tónlist þann ótrúlega mátt að geta magnað upp nánast hvaða tilfinningu sem er, hvort sem það er gleði, sorg, ótti eða hlátur. Dæmin eru endalaus. Lokaatriðið í Requiem for a dream, Ecstacy of gold í endann á The Good the Bad and the Ugly og til að taka nærlægara dæmi: endaatriðið í Juno. Tónlistin setur andrúmsloftið og magnar það þannig að maður getur virkilega samsvarað sig með persónu bíómyndarinnar. Það ætti því að vera dagljóst að tónlist er órjúfanlegur hluti góðra bíómynda.

Munurinn á Soundtrack og Score
Mig langaði aðeins að koma þessari skilgreiningu með því ég hef oft vellt þessu fyrir mér og fannst tilvalið að leita svara við gerð þessarar færslu. Munurinn er satt best að segja sáralítill en af því sem mér skildist þá er orðið Score notað um tónlist sem er saman í kringum myndina til dæmis stef sumra bíómynda og svona lítil skiptistef. Soundtrack er síðan víst notað um "lögin" í myndinni þ.e. þá tónlist sem gæti alveg staðið ein og sér sem lag. Soundtrack er síðan notað líka þegar talað er um tónlist úr bíómynd sem gefin hefur verið út á geisladisk. Bæði þessi hugtök geta víst átt um frumsamda tónlist annað en ég hélt alltaf. Munurinn er samt sáralítill og ég held að ég haldi mig bara við að tala alltaf um soundtrack hvort heldur sem átt er við eiginlegt soundtrack eða score.

Algengasta gerð kvikmyndatónlistar
Algengasta gerð kvikmyndatónlistar þ.e. sú sem við heyrum oftast er sú sem prýðir flestar allar Hollywood myndir. Það sem ég meina með þessu er í rauninni myndir þar sem öll tónlistin er spiluð af stórri sinfóníuhljómsveit og er í flestum tilfellum alveg ótrúlega óáhugaverð. Ég er ekki að gagnrýna neitt en það geta allir ímyndað sér tónlistina í "How to lose a guy in 10 days" og "Notting Hill". Þetta er bara einhver svona klysja sem er "auðvelt" eða gera. Það er, menntaðir tónsmiðir eiga ekki í miklum vanda með að skella í eitt þannig soundtrack.
Þrátt fyrir þetta allt saman eru nokkrir meistarar í Hollywood sem skara framúr hvað varðar gerð tónlistar í þessum dúr og gera það virkilega, virkilega vel.. Þá detta mér strax í hug Howard Shore, sem ég minntist á í færslunni um Eastern Promises, og gamla góða John Williams. Ég ætla bara að nefna tvö dæmi um myndir sem þessir menn hafa komið að og tónlistin er sérstaklega góð í.

Howard Shore - Lord of the Rings I-III
Þessi maður hefur samið tónlist fyrir alveg glás af bíómyndum en ég tek Lord of the Rings trilógíuna sem dæmi þar sem ég held að nánast allir hafi séð þessar myndir. Tónlistin er í raun frekar hefbundin fyrir Hollywood mynd (ég veit að þetta er mjög vafasamt term yfir LOTR en það sem ég meina er að þetta sé svona vinsæl stórmynd) en hún nær einhvernvegin algjörlega að fanga stemmninguna í sögum J.R.R. Tolkien og verður aldrei klysjukennd. Þetta er aftur á móti ein epískasta kvikmyndatónlist sem ég hef heyrt og nægir að benda á aðalstef myndanna því til sönnunar. Howard Shore hefur m.a. komið að The Silence of the lambs, Ed Wood, Se7en, High Fidelity, The Departed og The Aviator.

John Williams - Star Wars
John Williams er maðurinn á bak við "The Imperial March" og alla hina Star Wars klassíkerana. Ég held að það geti lang flestir sönglað að minnsta kosti eitt stef út Star Wars myndunum. Svo þekktar eru þær. Þessi maður hefur unnið við svo margar stórmyndir að það er nánast ekki hægt að festa tölu á þetta allt saman. Dæmi: Jaws, Superman, E.T., Jurasic Park, Indiana Jones, Schindler´s list og Harry Potter. Hann hefur auk þess samið þemalag Ólympíuleikanna hvorki meira né minna en fjórum sinnum. The American Film Institute segir soundtrackið í Star Wars sé það best sem nokkurtíman hefur verið samið. Beat that!

Öðruvísi tónlist í kvikmyndum
Hér erum við komin að því sem ég hef sérstaklega gaman að: myndir sem bjóða upp á tónlist sem er aðeins utan "normsins". Ég hef mjög gaman að því þegar það er pælt aðeins meira í tónlistinni heldur en að setja bara hvern sem er í verkið. Sérstaklega finnst mér þó gaman þegar hljómsveitir eru fengnar til að semja alveg heilt soundtrack fyrir bíómynd. Það gefur svpna heildarstíl yfir tónlistina sem ég hef bara ekki fundið annarsstaðar. Það eru samt sem áður alveg endalaus dæmi um myndir með góðri og velútpældri tónlist en mig langar að taka svona það sem mér er efst í huga þegar ég hugsa um svona alternitive tónlist í bíómyndum.

1. Jonny Greenwood - There Will Be Blood
Jonny Greenwood er gítar- og hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Radiohead. Það sem gerði mig einna mest spenntar fyrir þessari mynd var staðreyndin að hann semdi tónlistina (fyrir utan allar hinar augljósu ástæðurnar). Ég held alveg örugglega að þetta sé í fyrsta skipti sem hann gerir eitthvað þessu líkt en þetta heppnast alveg þrælvel hjá honum. Tónlistin er reyndar ekki allra og sellóleikarinn sem sat við hliðina á mér í bíóinu fannst þetta svolítið eins og maður að búa til klassískt-inblásna tónlist án þess þó að búa yfir neinni sérstakri þekkingu á því hvaða hljóðfæri hljómuðu vel saman og þar fram eftir götunum. Ég get svosem alveg verið sammála þessu. Tónlistin byggist mest á strengjahljóðfærum og alls kyns ásláttarhljóðfærum. Það sem mér fannst sérstaklega töff var hvernig tónlistin flakkaði rosalega mikið hvað hljóðstyrk varðar. Ég mæli eiginlega bara með því að þið kíkið á þessa mynd og pælið aðeins í tónlistinni á meðan.

2. Air - Virgin Suicides
Þetta er ógeðslega töff. Þeir sem hafa heyrt í Air geta velt fyrir sér hvernig nokkrum manni gat dottið í hug að láta þá semja tónlist fyrir mynd sem heitir Virgin Suicides. Tónlistin í myndinni er í rauninni ekki langt frá því sem Air gera venjulega þó þeir séu kannski á örlítið drungalegri nótum. Margir kannast örugglega við lagið "Playground Love" en það er einmitt úr þessari mynd. Stefið er síðan notað oft í allskonar útgáfum í gegnum myndina. Vel þess virði að tjékka á.

3. Svartur köttur, hvítur köttur
Þessi mynd er svo ótrúlega góð. Ég man eftir að hafa séð hana í bíó þegar ég var 10 eða 11 ára og ég man ennþá eftir henni. Það sem situr þó fastast í mér er tónlistin. Hún er vægast sagt geðveik. Allir sem hafa minnsta áhuga á Balkan tónlist ættu að tjékka á þessu. Þetta eru mennirnir á bakvið þessa snilld: Nele Karajlić, Voja Aralica, Dejo Sparavalo. Ég þekki reyndar engan af þeim og held að þeir hafi ekki neitt merkilegt síðan. Ég komst reyndar að því með hjálp Wikipedia að Nele Karajlić "is a Serbian rock and roll musician, composer, actor and television director." Magnað.


Engin tónlist
Það magnaða við tónlist er að það er ekki aðeins gæði tónlistarinnar sjálfrar sem skiptir máli heldur skiptir staðsetningin í myndinni líka gríðarlega miklu máli. Það að klippa á tónlistina eða hafa enga tónlist í ákveðnu atriði getur kallað fram nákvæmlega sömu hughrif og tónlist. Hver kannast ekki við það að vera að horfa á hryllingsmynd og svo allt í einu er grafarþögn og þú heyrir í sjálfum þér anda og spennast upp. Annað frábært dæmi um eitthvað svona er brotið sem við horfðum á úr The Godfather í tímanum á mánudaginn. Tónlistin (sem var eins og Siggi sagði okkur um daginn púsluð saman út A og B stefjum) byggði upp spennuna í atriðinu en um leið og hesthausinn sést og öskrin byrja þá er klippt á tónlistina. Þetta eykur mjög mikið áhrifin. Bæði það að öskrin hefðu ekki heyrst jafn vel með tónlistina í bakgrunninum og líka það að það hefði verið fáránlegt að halda áfram með tónlistina því að atriði nær algjörum klímaxi við öskrin og því fáránlegt að ætla að byggja upp spennu á meðan eða strax eftir á.
Annað gott dæmi er eiginlega bara öll A History of Violence myndin. Það er alveg rosalega lítil tónlist í henni. Mér finnst það einmitt vera helsti kostur hennar. Myndin líður hjá í makindum og svo allt í einu gerist eitthvað rosalegt og þá fylgir tónlistin með.
Skortur á tónlist getur því verið alveg jafn magnaður og góð tónlist. Hér er síðan brot úr annarri færslu sem ég skrifaði fyrir jól þar sem ég tek svipað dæmi úr meistaraverkinu The Thing:

Stefið mig langar að tala um kemur fram á ýmsum stöðum í myndinni t.d. í byrjuninni þegar Kurt Russel og félagar fara að kanna norsku rannsóknarstöðina og í atriðinu þar sem þeir eru að gera blóðprufuna (sem er svona by the by eitt mest spennandi atriði sem ég man eftir, þið sem hafið séð þessa mynd hljótið að vera sammála mér). Stefið er í raun bara einn tónn og trommusláttur undir. Kemur svona eins og taktfast bank eða "thud" en nær á einhvern hátt sem mér er ómögulegt að útskýra að byggja upp alveg ótrúlega spennu. Ég fór reyndar að pæla í því eftir á að það er kannski ekki bankið sjálft sem er svona ógnvekjandi heldur þögnin á milli þeirra. Ég veit reyndar ekki alveg hvert ég er að fara með þá pælingu en það er oft raunin að þögn gerir meira en hávaði.


Uppáhalds tónskáldin mín
Fyrstan langar mig að nefna meistarann Yann Tiersen. Hann er meistarinn sem gerði tónlistina í Amelie og Goodbye Lenin! Þessi maður spilar á ALLT! Gítar, trommur, píanó, bassa, harmonikku, fiðlu ... bara allt! Enda er mjög fyndið að kíkja inn í diskana hans og sjá "Yann Tiersen: Everything". Tónlistin er í eðli sínu rosalega svona frönsk og þjóðlagakennd. Það sem mér finnst samt skemmtilegast við Yann Tiersen, fyrir utan það hvað tónlistin hans er ótrúlega flott bara stök, er hvað tónlistin smellpassar alltaf í myndirnar. Það er sama hvort hann er að gera tónlist fyrir hugljúfa franska mynd (Amelie) eða mynd sem gerist í kringum fall Berlínarmúrsins (Goodbye Lenin!) þetta passar alltaf fullkomlega við.
Ég held að flestir kannist við aðalstefið úr Amelie en ef ekki kíkið á þetta hér að neðan (reyndar ekki úr Amelie en mjög flott). Það ætti kannski líka að minnast á það að hann gerði geðveikan geisladisk með söngkonu sem heitir Shannon Wright sem ég mæli með að fólk kíki á.



Næstan skal nefna Danny Elfman. Ef þú hefur einhvertíman horft á sjónvarp eða horft á bíómynd held ég að ég geti sagt með nokkurri vissu að þú hafir heyrt í Danny Elfman. Hann samdi meðal annars Simspons-þemalagið (ég hugsa að það sé frægasta þemalag í heimi) og Desperate Housewives-byrjunarstefið. Hann hefur líka gert tónlist við ótal bíómyndir t.d. Red Dragon og Good Will Hunting. Ást mín á honum er þó nátengd ást minni á Tim Burton. Danny Elfman gerir tónlistina í nánast öllum myndum Tim Burtons. Og það ótrúlega er að hún er alltaf jafn ótrúlega góð. Músíkin hans hefur alltaf yfir sér svona ævintýrakeim og þess vegna finnst mér hún passa svo fullkomlega við myndir Tim Burtons. Samstarf þeirra tveggja má finna í t.d. : Big Fish, Edward Scissorhands, Nightmare Before Christmas, Corpse Bride, Batman og Batman Returns.

Gegnumgangandi stef
Mig langar svona rétt í lokin að tala aðeins um stef sem eru gegnumgangandi í gegnum heilu bíómyndirnar og áhrifin sem þau geta haft. Það sem gerir endurtekið stef magnað er það að stefið er iðulega spila nokkrum sinnum á vendipunktum í myndinni og þá oft á tíðum í mismunandi útsetningum. Dæmi úr gamalli færslu um El Labirinto del Fauno:

Í byrjun myndarinnar þegar mæðgurnar eru á leið sinni til Capitán Vidal í hestvagninum þá er "aðalstefið" í myndinni undir. Það minnir svolítið á einhverskonar vögguvísu, rosalega angurvært og fallegt, spilað af einhverri lítilli sinfóníusveit. Svo þegar þær stoppa og Ofelia fer út og setur brotið úr styttunni aftur á réttan stað þá kemur nákvæmlega sama stef nema spilað mjög djúpt á kontrabassa svo að merking stefis breytist gjörsamlega úr því að vera fallegt yfir í að vera drungalegt. Guillermo er að vinna rosalega mikið með svona pælingar í myndinni sem mér finnst frábært.


Þetta er ein áhrifaríkasta leiðin til að vekja hughrif fyrir tónlist hjá áhorfandanum.

Tökum dæmi:

Ég held að flestir ættu að kannast við aðalstefið úr Brokeback Mountain. Ef ekki þá skiptir það ekki svo miklu máli. En allavega, þetta mjög svo fallega stef kemur fyrir nokkrum sinnum í myndinni og þá alltaf á einhverskonar vendipunkti í myndinni. Þetta kemur t.d. fyrst þegar þeir átta sig á tilfinngum sínum í garð hins og virkar þá rosalega hugljúft og fallegt. Stefið kemur síðan aftur seinna í myndinni þegar þeir átta sig á að þeir geti aldrei verið saman og þá er þetta hugljúfa stef, þó svo að það sé tæknilega séð alveg nákvæmlega eins, orðið alveg ótrúlega sorglegt. Það eina sem hefur breyst eru aðstæður persónanna í myndinni.

Svipað dæmi má taka úr eðalmyndinni Requiem for a Dream.



Vonandi höfðuð þið gaman að þessum hugleiðingum mínum.

Takk takk.

7 comments:

Ingólfur said...

Meistaraverk. Maður hatar ekki tónlist.

Siggi Palli said...

Epískt.

Ég pæli almennt séð ekki mikið í tónlistinni í bíómyndum, og er eiginlega frekar clueless þegar að þessu kemur. Það er helst þegar hún er ekki alveg að virka (fyrir mig) sem ég tek eftir henni (t.d. Eyes Wide Shut og upprunalega Planet of the Apes).

Það er eitthvað við John Williams sem fer stundum í taugarnar á mér. Maður getur náttúrulega ekki kvartað yfir Jaws eða Star Wars, og Indiana Jones finnst mér svona á heildina litið nokkuð fín. En mér finnst hann oft stýra upplifuninni meira en ég myndi vilja. T.d. fíla ég ekki soundtrackið í Harry Potter. Ég veit alveg að hann er góður, en í mörgum tilfellum virkar hann bara ekki vel á mig.

Uppáhalds-soundtrackið mitt er líklega Dead Man, og það er frekar óvenjulegt, bara Neil Young að glamra á gítarinn sinn. Og það eru margir sem HATA þetta soundtrack. En það svínvirkar á mig.

Siggi Palli said...

Gleymdi stigagjöfinni.
8 stig.

Árni Þór Árnason said...

Vó! Verð að sjá Dead Man þá! Vissi ekki að Neil Young hefði gert soundtrack!

Kíki á þetta við fyrsta tækifæri!

Siggi Palli said...

Varðandi fyrirlesturinn. Ég lánaði Marinó nokkrar gamlar Kusturica myndir og einn disk með bandinu hans (Unza Unza Time með The No Smoking Band). Síðan varð ég mér úti um eintök af nýlegri myndunum hans í dag - Underground, Svartur köttur, hvítur köttur og nýjustu myndinni, Zavet. Ég get lánað ykkur þær, en ég verð ekkert niðri í skóla á morgun, þ.a. þið yrðuð annað hvort að bíða þangað til eftir páska eða koma og sækja þær...

birkir said...

Snilld. Hlakka til að fylgjast með þessu þegar ég horfi á There Will Be Blood. Ég er mjög sammála því hvaða áhrif það hefur í bíómyndum að hafa enga tónlist og man eftir því úr A History of Violenceþegar þú segir það þó ég hafi ekki mikið pælt í því at the time.

Siggi Palli said...

Endurskoðuð stigagjöf. 10 stig.

Ef þú vilt máttu skila þessari ritgerð sem valfrjálsa verkefninu. En þá verða kröfurnar líka aðeins meiri. Til þess að fá fullt hús stiga þyrftir þú að bæta inn fleiri tóndæmum - gera þetta að raunverulegri margmiðlun...