Saturday, September 8, 2007

Das leben der anderen (The life of others) - 2006


Þetta er mynd sem ég er búinn að ætla sjá alveg síðan hún hlaut óskarverðlaun fyrir "bestu mynd sem ekki er á ensku". Einhvernvegin var ég samt aldrei búinn að hafa mig út í horfa á hana. Það var ekki fyrr en kærastan mín var búin að nauða í mér í nánast hálft ár sem ég loksins drattaðist til að sjá þessa mynd.

Það lýsir þessari mynd eiginlega best að hún var ein af þeim myndum sem voru alveg við það komast inn á Topp 10 listann minn.

Myndin gerist í Þýskalandi á nokkurra ára tímabili áður en Berlínarmúrinn féll. Stasi lögreglan er allsráðandi í Austur-Þýskalandi og á meðan íbúar Vestur-Þýskalands lifa frekar eðlilegu lífi býr Austur-Þýskaland við kúgun og ritskoðun. Ég ákvað að lesa mér til um Stasi lögregluna eftir að ég horfði á þessa mynd og komst að því að það sem kom fram í myndinni voru engar ýkjur. Þúsundir manna og kvenna voru undir stöðugu eftirliti. Hljóðnemar í íbúðunum og myndavélar eru bara tvö dæmi af ótrúlega mörgum sem Stasi notaði til að fylgjast með “óvinum yfirvaldsins”. Það sem mér fannst reyndar ógnvænlegast við þetta allt saman var það að það var engin leið að vita hver var í Stasi og hver ekki. Þeir hótuðu fólki bara til að vinna með þeim. Dæmi voru um að börn væru tekin inn í Stasi til þess eins að koma upp um foreldra sína.

En aftur að myndinni. Ulrich Mühe stendur sig frábærlega sem Wiesler, foringi í Stasi lögreglunni en hann ákveður að taka að sér að líta eftir leikritaskáldinu Dreyman, sem grunaður er um að vera tengdur Vestur-Þýskalandi.
Reyndar má eiginlega bara ausa lofi yfir alla leikarana í þessari myndi. Þeir eru allir frábærir. Martina Gedeck leikur ástkonu Dreyman og túlkar hlutverk sem útskúfuð leikkona (Stasi ákváðu bara að hún mætti aldrei leika aftur á sviði vegna sambands hennar við Dreyman) og verkjalyfjasjúklingar alveg einstaklega vel.
“Look”-ið á myndinni er líka eitthvað sem vert er að hrósa. Allt er rosalega grátt og ömurlegt og þessi yfirþyrmandi tilfinning um það sé alltaf einhver að fylgjast með þér skilaði sér alveg ótrúlega vel.

Ekki gera sömu mistök og ég. Haupið út í búð og kaupið ykkur þessa mynd því hún er algjört meistaraverk!


Stigagjöf:

5/5

No comments: