Sunday, September 16, 2007

Pæling um stef í kvikmyndum


Mér finnst það í rauninni alveg magnað hversu mikil áhrif einföld stef geta haft á bíómynd. Jafnvel stef sem eru ekki nema ein eða tvær nótur geta byggt upp magnað andrúmsloft og geta gert mann bæði skíthræddan og grætt mann. Þessi tækni er auðvitað miklu meira notuð í hryllings- og spennumyndum þar sem þörf er að á að byggja upp spennu. Svona stef einskorðast þó ekki aðeins við þannig myndir. Máli mínu til stuðnings langar mig að minnast á nokkur slík stef, aðallega úr hryllingsmyndum þó.

Tökum sem dæmi aðalstefið í Jaws. Það er aðeins tvær nótur sem verða alltaf hraðari og hraðari. Það getur ekki nokkur maður sagt mér að hann hafi ekki verið skíthræddur við það eitt að blanda saman þessu stefi og risastórum hákarli og ég þori að veðja að þetta stef kemur upp í huga margra þegar þeir hugsa um að hákarl að ráðast á eitthvað.

Hér er stefið: (í fáránlegri útgáfu reyndar, tjékkið bara á fystu sekúndunum)

http://www.radioblogclub.com/open/112476/jaws/Jaws

Annað dæmi úr mynd sem ég rifjaði einmitt um síðustu helgi en það er John Carpenter myndin The thing. Ég reyndar vissi ekki ekki fyrr en ég sá creditið í byrjun myndarinnar að Ennio Morricone hafi séð um tónlistina í henni. En allavega, í þessari mynd er verið að vinna með svipaðar pælingar og í Jaws, ótrúlega einföld stef. Stefið mig langar að tala um kemur fram á ýmsum stöðum í myndinni t.d. í byrjuninni þegar Kurt Russel og félagar fara að kanna norsku rannsóknarstöðina og í atriðinu þar sem þeir eru að gera blóðprufuna (sem er svona by the by eitt mest spennandi atriði sem ég man eftir, þið sem hafið séð þessa mynd hljótið að vera sammála mér). Stefið er í raun bara einn tónn og trommusláttur undir. Kemur svona eins og taktfast bank eða "thud" en nær á einhvern hátt sem mér er ómögulegt að útskýra að byggja upp alveg ótrúlega spennu. Ég fór reyndar að pæla í því eftir á að það er kannski ekki bankið sjálft sem er svona ógnvekjandi heldur þögnin á milli þeirra. Ég veit reyndar ekki alveg hvert ég er að fara með þá pælingu en það er oft raunin að þögn gerir meira en hávaði.

Það er ein mynd í viðbót sem mig langar að minnast á og það er 28 days later. Mér persónulega finnst þetta klikkuð mynd og get hiklaust sagt að þetta sé ein af allra, allra bestu zombie myndum sem ég hef séð. Þeir sem hafa séð þessa mynd muna eflaust eftir stefinu sem er í gangi þegar aðalkarakterinn vaknar einn á sjúkrahúsi í London og fer að rölta um borgina. Þetta er lag með hljómsveitinni Godspeed you! black emperor (sem er einmitt uppáhaldshljómsveitin mín) sem heitir East Hastings. Eins og í Jaws er þetta stef sem verður alltaf hraðara og hraðara og hækka með hverri endurtekningu. Þetta lag var reyndar ekki samið fyrir bíómynd heldur kom út á fyrsta disk þessarar hljómsveitar en það passar alveg ótrúlega vel í einmitt þessa senu. Mæli með að þið tjékkið á þessu lagi og þessari hljómsveit. Ég held meira að segja að Godspeed eigi fleiri lög en þetta eina í 28 days later en ég þori ekki alveg að fara með það.

Hérna er lagið:

http://www.radioblogclub.com/open/65249/east_hastings/Godspeed%20You%20Black%20Emperor%20-%20East%20Hastings

Það gæti verið að komi með framhald af þessari grein einhvertíman seinna eða þá grein um eitthvað annað sem tengist hljóði í kvikmyndum en læt þetta duga í bili.

No comments: