Saturday, September 15, 2007

Topp 10 (Hluti II) - El laberinto del Fauno - 2007


Það má í raun líta á þessa færslu bæði sem færslu um bíómynd sem ég er nýbúinn að sjá (því ég horfði á hana í 4. skiptið um daginn) og sem hluta af þessari Topp 10 seríu.

Þessi mynd, sem er eftir Guillermo del Toro þann sama og gerði Hellboy, er alveg yndisleg. Það er svo ótrúlega margt við þessa mynd sem gerir hana frábæra. Allt virðist smella saman fullkomlega. Hljóðið, myndatakan, leikurinn og þemun virka öll svo ótrúlega vel og ná að kalla fram alveg ótrúlega nálægt við persónurnar og skapa trúlegt andrúmsloft. Ég er nú yfirleitt hrifnari af umsögnum sem eru ekki kaflaskiptar en mér finnst það eiginlega alveg nauðsynlegt ákkurat núna. En byrjum á smá samantekt.

Myndin gerist á Spáni á síðstu árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hún fjallar um litla stelpu, Ofeliu, sem flyst ásamt móður sinni til foringja í spænska hernum (Capitán Vidal) eftir að faðir hennar deyr í stríðinu. Móðir Ofeliu er ófrísk og veikburða og það er greinilegt að það er engin ást á milli hennar á Capitán Vidal en hún gerir það sem hún þarf til að halda sér og dóttir sinni öruggum. Ofelia þráir að flýja hversdagsleikann og sekkur sér ofan í ýmiskonar ævintýrabækur. Sögusvið myndarinnar er sveitahús Vidals, þar sem hann og hans menn reyna að uppræta "guerilla" hóp sem eru andsnúnir Franco, og völundarhúsið sem er þar rétt hjá. Inn í þennan raunveruleika blandast síðan saga af prinsessunni Monana og endurkomu hennar. Þeirri sögu er eiginlega best lýst í upphafsorðum myndirinnar:

A long time ago, in the underground realm, where there are no lies or pain, there lived a Princess who dreamed of the human world. She dreamed of blue skies, soft breeze, and sunshine. One day, eluding her keepers, the Princess escaped. Once outside, the brightness blinded her and erased every trace of the past from her memory. She forgot who she was and where she came from. Her body suffered cold, sickness, and pain. Eventually, she died. However, her father, the King, always knew that the Princess' soul would return, perhaps in another body, in another place, at another time. And he would wait for her, until he drew his last breath, until the world stopped turning...



Hljóðið
Ég verð að viðurkenna. Ég er algjör nöll þegar kemur að hljóði og lögum í bíómyndum. Allt hljóð í þessari mynd færi toppeinkunn frá mér. Öll frumsömdu lögin í henni eru gull falleg og ambience hljóðin eru geðveik! Svo ég nefni dæmi: (fyrir þá sem hafa ekki séð myndina breytir þetta nánast engu þannig ekki hætta að lesa hér) Í byrjun myndarinnar þegar mæðgurnar eru á leið sinni til Capitán Vidal í hestvagninum þá er "aðalstefið" í myndinni undir. Það minnir svolítið á einhverskonar vögguvísu, rosalega angurvært og fallegt, spilað af einhverri lítilli sinfóníusveit. Svo þegar þær stoppa og Ofelia fer út og setur brotið úr styttunni aftur á réttan stað þá kemur nákvæmlega sama stef nema spilað mjög djúpt á kontrabassa svo að merking stefis breytist gjörsamlega úr því að vera fallegt yfir í að vera drungalegt. Guillermo er að vinna rosalega mikið með svona pælingar í myndinni sem mér finnst frábært. Svo ég segi líka eina setningu um ambience hljóðin í myndinni vil ég bara að þegar þið horfið á myndina að þið takið eftir hljóðunum í Fáninum þegar hann birtist fyrst -bæði hljóðunum í honum sjáfum og röddinni. Engra frekari útskýringa verður þörf þá.


Myndatakan
Myndatakan eins og allt annað í þessari mynd er frábær. Það er einhverskonar blá birta yfir öllu því sem á að gerast í "raunveruleikanum" og einhverskonar græn birta yfir öllu sem gerist í "fantasíu-heiminum". Þetta er ekki eitthvað sem þú tekur eftir í fyrsta skiptið sem þú horfir á myndina en kemur alveg ótrúlega vel út samt sem áður.
Það er allt morandi í ótrúlega flottum og frumlegum skotum í þessari mynd. Til dæmis má nefna öll atriðin sem gerist í og í kringum völundarhúsið sem er í fyrsta lagi ótrúlega vel gert (þ.e. völundarhúsið) og í öðru lagi gerir lýsingin andrúmslofið alveg ótrúlega magnþrungið.


Leikurinn
Leikarar myndarinnar standa sig allir með prýði. Ivana Baquero stendur sig frábærlega sem Ofelia og Sergi López leikur hinn grimma Capitán Vidal glæsilega. Þó fannst mér Ivana nánast vinna leiksigur í þessari mynd. Einhverstaðar las ég að Guillermo del Toro hafi upphaflega skrifað hlutverk hennar fyrir mun yngri stelpu en eftir að Ivana stóð sig alveg einstaklega vel í áheyrnarprufunni ákvað hann að aðlaga hlutverkið að henni.
Svo finnst mér vert að minnast á mann að nafni Doug Jones sem lék tvö hlutverk í myndinni og í hvorugu þeirra sést nokkuð í hann sjálfan en skilar þeim báðum frábærlega.



Það sem mér fannst gera þessa mynd svona frábæra, fyrir utan allt sem ég nú þegar búinn að telja upp, var í rauninni það hversu ótrúlega raunverulegt raunverulegi hlutinn af henni var og hversu ótrúlega trúlegur allur yfirnáttúruleikinn var.

Ég mæli með að þið reddið ykkur þessari mynd sem fyrst. Þið munuð elska´na!


Stjörnugjöf:

5/5

1 comment:

Siggi Palli said...

Ein af betri myndum ársins, ekki spurning. Og frábær færsla. Gaman að sjá svona ítarlega pælingu, sérstaklega um hljóðið, sem ég verð að játa að ég er yfirleitt ekkert sérstaklega meðvitaður um.