Saturday, September 29, 2007

RIFF #2 - Girls Rock / Heima

Ég skellti mér á tvær alveg þrælgóðar myndir í gær, töluverð bæting síðan í fyrradag. Ég vona bara að restin af myndunum verði jafn góðar!


18:00 - Girls Rock

Í upphafi voru víst einhver vandræði með sýningarvélina þannig að Arne Johnson, annars leikstjóri myndarinnar, kom og var með smá Q&A og kynnti myndina aðeins. Hann virkaði sem mjög nettur gæji og ekki spillti fyrir að hann er hálf-íslenskur (gamla þjóðernisstoltið). En að myndinni. Þvílík endemis snilld. Ég hafði ákveðnar væntingar til þessarar myndar þar sem þetta var heimildarmynd um rokk-búðir fyrir stelpur á aldrinum 7-18 ára en þær eru haldnar eru einu sinni á ári í eina viku. Myndin snerist í kringum nokkrar misgamlar stelpur í búðunum og tekin voru viðtöl við foreldra þeirra. Stelpurnar koma allar úr mismunandi umhverfi t.d. er ein þeirra fyrrum 15 vandræða unglingur og ein lítil 7 ára prinsessa sem finnst að "outfittið" hennar þurfi að passa við lagið sem hún er að syngja (en er samt einn harðasti pönkari sem ég hef séð). Þegar komið er í búðirnar er skipt upp í hljómsveitir eftir tónlistarstefnum og svo bara talið í. Flestar hafa þessar stelpur aldrei snert hljóðfæri áður og byrja því algjörlega á grunninum. Þær fá síðan viku til að semja og æfa lag sem þær eiga að flytja á 800 manna tónleikum í enda vikunnar.
Það er þó sterkur undirtónn í myndinni sem kemur best fram í skotunum þar sem talað er við kennarana (sem eru margir úr frægum stelpna hljómsveitum eins og Sleater-Kinney og Gossip. En Arne sagði fyrir myndina að hann hefði einmitt fundið þetta rokk camp vegna þess að hann væri mikill aðdándi Sleater-Kinney og séð að þær væru að kenna þarna) og í textainnskotum sem koma fyrir á nokkrum stöðum í myndinni. Markmið búðanna er í raun að leyfa stelpum að vera stelpur og bara sletta úr klaufunum. Brjóta niður staðalímyndir á kvenmönnum og sýna stelpunum hvað steriótýpubritneyspears gellurnar eru leim og sýna þeim hvernig á að rokka. Stelpurnar fá t.d. að fara í svona sjálfsvarnartíma þarna og öskurkeppni.
Allt í allt fannst mér þetta frábær myndin með góðan boðskap og ég hvet alla til að fara á hana. Ég missti reyndar af Q&A eftir myndina því ég þurfti að hlaupa á næstu mynd en ég veit að Bóbó fór og talaði við kallinn, endilega tjékkið á því.

Stigagjöf:

4/5

-


20:00 - Heima

Það ætti kannski að taka það fram að ég mikill aðdáandi Sigur Rósar en þeir sem eru ekki mikið fyrir þá hafa ekkert að gera á þessa mynd. Mig er búið að langa að sjá þessa mynd í alveg ótrúlega langan tíma. Alveg síðan ég sat einmitt á tónleikum með þeim í Ásbyrgi sem voru einmitt lokatónleikarnir í þessari ferð. Mér fannst tónleikaröð Sigur Rósar um landið vera algjörlega einstakt fyrir hljómsveit af þeirri stærðargráðu og að spila á stöðum eins og Djúpuvík sem er nánast bara eyðibær bíður upp á alveg ótrúlega stemmningu. Sérstaklega fannst mér þó gaman að því þegar þeir spiluðu órafmagnað (og það var þó nokkuð um þannig senur í myndinni) á Gömlu borg á Selfossi og úti hjá eyðibýli á Vestfjörðum. Sjónrænt séð er þessi mynd alveg ótrúlega flott. Skoðið bara trailerinn hann sýnir fullt af þessum flottu skotum t.d. þegar þeir taka mynd aftur úr bát og aftur úr bíl á leiðinni yfir Skeiðarársand. Ég fór einmitt að velta því fyrir mér hvernig þeir geta haldið myndavélinni svona stöðugri. Getur einhver ykkar svarað því?



Það eina sem mér fannst að þessari mynd var að hún var á tímum, sérstaklega þó í byrjun, svolítið mikið svona náttúrurúnk. Það sem ég meina með því að það voru tilgangslaus skot af afturábak fossum og einhverju drasli. Þetta lagaðist reyndar þegar þeir voru lagðir af stað í tónleikaferðina sjálfa því þá komu brot úr sögu tilsvarandi bæjar og myndir úr nánast umhverfi. En kostir myndarinnar eru svo ótrúlega margir að þeir bæta alveg upp fyrir smávægileg mistök. Frábær mynd!

Stigagjöf:

4/5


Þegar hingað var komið fannst mér ég vera búinn að fá nóg og vildi enda á toppnum þannig ég sleppti Shotgun stories. Ég kíki örugglega á hana fljótlega. Annar dagur RIFF var frábær og ég vona að sá þriðji verði það líka! Við Ingólfur erum á leiðinni í Tjarnarbíó í eftirmiðdaginn að sjá: You, the living, XXY og Midnight Movies. Þetta verður örugglega helvíti erfitt á afturendann því ef ég man rétt þá eru sætin í Tjarnarbíói ekki þau þægilegustu. En maður lætur það ekki aftra sér í að upplifa frábærar kvikmyndir!

2 comments:

Siggi Palli said...

Var að kíkja á heimasíðu myndarinnar, og nafni þinn, Arne Johnson, er búinn að setja link yfir á færsluna þína, rosalega ánægður með að hafa fengið 4 af 5 mögulegum (ég held hann hafi ekki skilið neitt annað). Árni bara orðinn heimsfrægur bloggari (svona næstum því)!

Árni Þór Árnason said...

heheheheh snilld! Við nafnarnir stöndum saman!