Saturday, September 29, 2007

RIFF #3 - You, the living / XXY / Midnight movies

Ég hafði miklar væntingar til þessa kvölds. Fjórar bíómyndir sem mig langaði allar að sjá og hafði heyrt gott um flestar þeirra. Kvöldið byrjaði frábærlega en endaði með skelfingu.


18:00 - You, the living

Eftir að Siggi hafði talað um þessa mynd og þennan leikstjóra (Roy Anderson) fór ég á þessa mynd fullur eftirvæntingar. Í stuttu máli stóðst hún allar mínar væntingar. Myndin er í raun eins og langur sketsaþáttur. Í góðum skilningu. Fjöldamargar persónur koma fram í myndinni og sumar þeirra tengjast og sumar ekki. Myndin er vægast sagt ótrúlega fyndin, sem ég bjóst einmitt ekki við að hún væri. Ég var handviss um að ég væri að fara á eitthvað drama. Þrátt fyrir að vera pínulítið skrýtin og sagan ekki endilega neit rosalega sterk (enda var þetta svolítið eins og sketsaþáttur) voru kostir myndarinnar mun fleiri en ókostir hennar. Kvikmyndatakan og allt look á myndinni var frábært. Fær alveg stóra feita 10 fyrir það. Kvikmyndatakan sérstaklega. Það var mest notast við kyrrmyndir þ.e. myndavélin hreyfðist nánast aldrei og allt gerðist innan þessa ramma. Ég og Ingólfur töldum bara eitt skot þar sem myndavélin hreyfðist og þá ekkert rosalega mikið. Þetta deyjandi form kom virkilega vel út þarna. Það að hafa myndina þetta kyrra bauð upp á að setja hvert skot í rauninni eins og málverk þ.e. uppstillingin á öllu var alveg rosalega flott. Litirnir í myndinni voru líka rosalega flottir. Engir sterkir litir heldur allt einhvernvegin svona... æji ég veit það ekki alveg. Verðið eiginlega að sjá það.
Ég ætla að sleppa því alveg að skella stigum á þessa mynd þar sem að ég hef eiginlega aldrei séð svona bíómynd áður. Hún var allt öðruvísi en flest sem ég hef séð. Mæli hiklaust með þessari mynd!

-


20:00 - XXY

Ég vissi eiginlega ekki alveg hvað ég átti að halda þegar ég gekk inn á þessa mynd. Vissi í rauninni ekkert um hana nema að hún fjallaði um stelpu sem fæðist tvítóla. Já ég veit, þetta hljómar eins og þetta gæti alveg orðið fyndið. Útkoman varð allt önnur. Þetta er ein af betri myndum sem ég hef séð. Ég er ekki frá því að ég skelli henni á listann yfir myndir sem eru alveg við það að komast inn á Topp 10. XXY var á allan hátt virkilega vel leikinn og sagan alveg ótrúlega góð. Stelpan sem lék aðalkarakterinn Alex, Inés Efron, var alveg ótrúleg. Kornung og ótrúlega hæfileikarík. Einnig finnst mér vert að minna á leikarinn sem lék pabba hennar, Ricardo Darín, en hann sýndi frábæran leik. Þessi mynd kom mér alveg hrikalega mikið á óvart. Ég mæli hiklaust með henni. Þetta er hiklaust besta myndin sem ég hef séð á RIFF hingað til.

-


22:00 - Midnight Movies (The Tripper/Black Sheep)

Eftir frábært kvöld af bíómyndum byrjar skelfingin. Það var röð af leiðindaatburðum sem gjörsamlega eyðilögðu þessar myndir fyrir okkur. Svo ég fara í þetta í mjög, mjög stuttu máli var fólk sem stal sætunum okkar og þóttist hafa tekið þau frá og við enduðum þar af leiðandi í ömurlegum sætum. Meira að segja svo lélegum að við ákváðum að sitja frekar á ganginum. Eftir þetta vesen kom á svið hljómsveit sem ætlaði sér að spila lög úr gömlum hryllingsmyndum með brot úr þeim varpað á skjá bak við sig. Það heppnaðist nú ekki betur en svo að eftir 4 lög, 4 leiðinleg og illa spiluð lög, bilaði eitthvað hjá þeim og þeir fóru af sviði í 30 min til að reyna að lag það og komu svo aftur og spiluðu í 30 min í viðbót. Mikið óskaplega var þetta leiðinlegt. Guð minn góður hvað þetta var leiðinlegt. Þetta allt saman orsakaði síðan það að fyrsta myndin var ekki byrjuð fyrr en kl. 12 (átti að byrja 10) og ofan á það spiluðu þeir fyrst myndina sem okkur félagana langaði mun minna að sjá þ.e. The Tripper. Við vorum báðir orðnir þreyttir og virkilega pirraðir þannig við ákváðum að fara bara. Þetta var of mikið. Þetta er reyndar sýnt aftur næst föstudag. Það er aldrei að vita nema maður kíki þá því mig langar virkilega mikið að sjá Black Sheep en hún fjallar um zombie-kindur.


Tvær geðveikar myndir eru alveg nóg til að bæta upp fyrir þessi leiðindi þarna í endann svo að kvöldið var þegar öllu var á botninn hvolft mjög gott. Mæli hiklaust með báðum þessum myndum! Takk fyrir mig.

1 comment: